Mér finnst Giljaskóli asnalega hannaður. Hann er allt of opinn. Sjálf skólaálman, þar sem skólastofurnar eru, er í rauninni bara eitt rými en samt á þremur hæðum. Ef lítill krakki fer að grenja á fyrstu hæð eða fjórðu bekkingar eru öskrandi í eltingaleik á annarri hæð berst hávaðinn út um allar þrjár hæðirnar.
Ég persónulega eyddi miklum tíma í að leita að einni góðri ástæðu fyrir því að hafa allt svona opið. Vissulega er skólinn mjög flottur og nútímalegur. Mér finnst hann stílhreinn og fallegur. En ég fann enga virkilega góða ástæðu fyrir því að hafa skólabygginguna svona rosalega opna. Ég er reyndar svolítið feginn að skólinn er svona byggður í staðinn fyrir að hafa langa, dimma og þrönga ganga. Svo held ég að loftið í Giljaskóla sé ekki jafn þungt og til dæmis í Lundarskóla.
Fleira jákvætt má segja um Giljaskóla. Ef kæmi upp eldur gæti reykurinn stigið allur upp á þriðju hæð en lítill eða enginn reykur yrði á fyrstu hæð þar sem yngstu bekkirnir eru. Þá yrði auðveldara fyrir litlu krakkana að forða sér út ef eldur kæmi upp og mikill reykur gysi upp. Aftur á móti yrði það mjög óþægilegt fyrir þá sem sitja tíma á efstu hæð skólans. Mest allur reykurinn færi þangað og nær óbærilegt væri að vera þar uppi í langan tíma. Reyndar eru nú ekki miklar líkur á því að allar leiðir niður á fyrstu hæð myndu lokast því leiðirnar eru þrjár og mjög greiðar. Ef það skyldi gerast að allar leiðir niður myndu lokast eru einnig tveir neyðargluggar inni í hverri skólastofu.
Mikið hlýtur samt að vera vont að hoppa niður af þriðju hæð án einhvers fyrir neðan sem væri tilbúinn fyrir með einhverskonar tæki til að mýkja lendinguna.
Benedikt Orri Pétursson 10.BKÓ