Jólin nálgast, dagskrá í desember

Samkvæmt venju verður eitthvað um að hefðbundin kennsla sé brotin upp í desember í tengslum við hátíð ljóss og friðar. Reynt er að skapa notalegt andrúmsloft innan veggja skólans og búa þannig um hnútana að allir finni eitthvað við sitt hæfi.

 Fyrsta jólasöngstundin var haldin síðastliðinn miðvikudag. Þá komum við saman á göngunum og sungum við undirleik Ástu, tónmenntakennara.  Sungið verður aftur dagana 2., 6., 8., 9., 12., 13., 16. og 19. desember. 

Í  morgun var 1.desember haldinn hátíðlegur með samkomu á sal þar sem við heyrðum fróðleiksmola varðandi atburði fullveldisdagsins og sungum nokkur lög.  Við mættum einnig í sparifötunum og afhentum þátttakendum í Grenndargralinu viðurkenningar.

Annar desember verður skreytingadagur þar sem nemendur fá að dunda við eitthvert jólaföndur og skreyta stofuna sína fyrir aðventuna.

Í Giljaskóla hefur skapast hefð fyrir ýmsum verkefnum sem tengjast aðventunni.  Dæmi um slík verkefni eru boðun Maríu og fæðing Jesú, englar, kvæði Jóhannesar úr Kötlum um íslensku jólasveinana, jólaköttinn, Grýlu, Leppalúða, Þegar Trölli stal jólunum og heimsóknir í kirkju svo eitthvað sé nefnt.

S

Sjötti bekkur sýnir helgileik að venju á sal. Áætlaðar sýningar verða 15.desember. Sýnt verður fyrir 1. – 7. bekk.

Föstudaginn 16.desember er áætlaður vinabekkjadagur.  Þá er ætlunin að vinabekkir geri eitthvað skemmtilegt saman, spili og fái sér kakótár.

Engir formlegir prófadagar verða en eitthvað er um að kennarar þurfi að setja á próf vegna námsmats.

Á bókasafninu er boðið uppá sannkallaða aðventustund.  Ingunn les úr nýjum jólabókum og býður uppá piparkökur. 

Litlu - jólin eru á dagskrá 20.des.  Við komum saman í íþróttasalnum og göngum þar í kringum jólatréð. Einnig eiga nemendur notalega stund með kennurum sínum í kennslustofum.  Áætlað er að tvískipta hópnum á sameiginlegum stundum í íþróttasal.  Tímasetningar eru ákveðnar 9.00 – 10.30 og svo kl. 10.00 – 11.30.

Í fyrra tóku stjórnendur þá ákvörðun að ætlast ekki til þess að nemendur mæti með litlar jólagjafir.  Hægt er gera Litlu - jólin hátíðleg með ljósum, söng, kortum og smákökum að heiman. Lesa góða jólasögu og eiga notalega stund áður en haldið er í jólafríið.  Starfsmenn gefa andvirði sinnar jólagjafar til mæðrastyrksnefndar og hefur skólinn bætt við þá upphæð því sem kostað var áður til jólakorta sem send voru.  Ef foreldrar/nemendur vilja styðja mæðrastyrksnefnd með smáframlagi getum við komið því til skila.   Með von um að aðventan verði tími ljóss og friðar bæði hér í skólanum og hjá okkur öllum. 

Gleðilega aðventu.