Kórferðalag Skólakórs Giljaskóla á Landsmót Barnakóra 19.-21.apríl 2013

Skólakór Giljaskóla fór helgina 19.-21.apríl suður á Landsmót Barnakóra sem haldið var í Kársnesskóla Kópavogi. Á föstudagskvöldinu var tekið á móti okkur í Salnum, tónlistarhúsi, á setningu þar sem dagskrá var kynnt og Skólakór Kársness söng. Eftir kvöldmat í Kársnesskóla fórum við aftur í Salinn þar sem kvöldvaka var haldin. Hver kór átti að syngja 2 lög og þar sungum við Eurovision lagið Ég á líf og keðjusönginn Hver skóp bláan himininn. Við vorum með þeim síðustu að syngja rétt fyrir kl.22 og vorum pínu þreyttar eftir langt og strangt ferðalag þar sem hurðin í rútunni opnaðist í tvígang bæði undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesinu vegna hvassviðris.  Þó tókst okkur að syngja vel og fórum rakleiðis í skólan að sofa eftir það.

Á laugardeginum æfðum við lög eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson, en hann kenndi okkur lögin sín. Aðalsteinn samdi meira að segja 2 ný lög fyrir kóramótið, Karimarimambó og Kanntu þetta, kanntu hitt? Einnig sungum við eldri lög af diskunum hans, Könguló, Berrössuð á tánum, Hvínandi vindur og Krúsilíus. Þessi lög þekkja margir og var roslega gaman að syngja þau við nýjar útsetningar Þóru Marteinsdóttur, dóttur Tótu kórstjóra í Kársnesskóla.

Á laugardagskvöldi var kvöldvaka í skólanum. Skólahljómsveitin lék, síðan var diskó, en það sem stóð upp úr var leynigestur sem hafði verið í kór hjá Tótu fyrir mörgum árum. Það var Erpur Eyvindarson, öðru nafni Blaz Rocca, en hann er rappari og flutti fyrir okkur 4 lög. Hann endaði á að fá kórkrakkana til að flytja með sér Hvítir skór sem er mjög vinsælt meðal krakkana í dag. Kvöldið var alveg frábært og var sungið og dansað til að verða 23!!!

Á sunnudegi æfðum við lögin okkar, héldum tónleika í skólanum kl.15 og keyrðum svo heim. Það voru 500 börn  á kóramótinu, 150 börn í hópnum okkar og svo komu amk 400 áhorfendur. Semsagt, svakalega margir í skólanum á tónleikunum og svakalega heitt. Við fórum sælar og ánægðar í rútuna okkar þar sem bílstjórinn Gunni tók vel á móti okkur. Hann sagði sögur á leiðinni heim norður og við stoppuðum í Staðarskála þar sem allar stúlkurnar fengur pening, sem þær höfðu unnið sér inn í Bingói fyrr í vetur, til þess að kaupa sér að borða. Frábær ferð í alla staði og voru þessar stúlkur úr 4.-6.bekk Giljaskóla öllum til sóma.  Einnig ber að þakka þeim frábæru mömmum sem fylgdu með allan tímann, en það voru Erla, Eva, Lilja og Sylvía. Bestu þakkir fyrir frábæra kórferð og hér má sjá myndir úr ferðinni.

Ásta Magnúsdóttir, kórstjóri.