Leitin að grenndargralinu hefst mánudaginn 6. september. Þetta er í þriðja skipti sem nemendur í 8.-10. bekk hefja leit að hinu
eftirsóknaverða grali. Hugmyndin að verkefninu fæddist í Giljaskóla sumarið 2008 og um haustið hófu nemendur skólans leit að
grenndargralinu í fyrsta skipti. Árið 2009 tók Síðuskóli þátt og nú hefur Glerárskóli bæst í hópinn.
Bjóðum við nemendur Glerárskóla velkomna til leiks.
Þrautir verða settar upp á vissum stað í skólunum þremur eins og tíðkast hefur. Þær koma upp eftir hádegi á
mánudögum. Heimasíða Leitarinnar hefur verið tekin í notkun en þar má jafnframt nálgast þrautirnar og annað sem þeim
tilheyrir auk almennra upplýsinga um verkefnið. Slóðin er www.grenndargral.is.
Framundan eru 10 vikur fullar af spennandi viðfangsefnum og ljóst að keppnin harðnar með hverju árinu. Við viljum hvetja foreldra og aðra sem koma að
uppeldi þeirra sem taka þátt í Leitinni til að aðstoða þau við úrvinnslu þrautanna. Leitin er góður vettvangur
fyrir fjölskylduna að koma saman og vinna að sameiginlegu verkefni þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Allir geta tekið þátt.
Umsjónarmenn verkefnisins eru Brynjar Karl Óttarsson kennari í Giljaskóla, Helga Halldórsdóttir kennari í Glerárskóla og
Sigrún Sigurðardóttir kennari í Síðuskóla.