Ég velti stundum fyrir mér af hverju ég sjálfur og börn á mínum aldri lesa minna en áður fyrr. Stór hluti af skýringunni er tæknin sem við höfum í dag þó aðrir þættir liggi vissulega fyrir. Í flestum bekkjum er orðinn minni yndislestur í tímum en var og er lítil hvatning til þess að lesa bækur. Nemendur nýta sér ekki bókasöfn eins og þeim er ætlað. En hvernig er það í skólanum okkar? Hvaða aldurshópar fá oftast lánaðar bækur? Hvað fær safnið margar bækur á ári? Ég fór niður á 2. hæð skólans til þess að kynna mér málið og fleira um bókasafnið í Giljaskóla. Ég spurði Ingunni, sem vinnur á bókasafninu, nokkurra spurninga og skráði niðurstöðurnur hjá mér.
Fjárframlög til skólabókasafna hafa verið skorin niður um helming og lestur barna og unglinga fer hrapandi. Um það vitna ítrekaðar mælingar. Undanfarið hef ég rekist á kannanir sem eru lagðar fyrir krakka í 5. og 10. bekk í grunnskóla. Til dæmis sýndi rannsóknin Ungt fólk á Íslandi 2011 að fjórðungur nemenda í 5., 6. og 7. bekk lesa nánast aldrei bækur sér til gamans.
Áætlað er að til séu í kringum 7 þúsund bækur á bókasafni Giljaskóla af öllum stærðum og gerðum og fyrir alla aldurshópa. Auk þess eru til hljóðbækur, tímarit og kvikmyndir. Lánstími er tvær vikur en nemendur geta fengið að framlengja lánstímann ef á þarf að halda.
Ingunn segir að nemendur í 1.-5. bekk séu duglegasti aldurshópurinn í lestri í Giljaskóla. Hún segir unglingana ekki nógu duglega að koma á safnið. Hún reiknar með að safninu berist rúmlega 30 nýjar bækur á hverju ári. Eitthvað nýtt fyrir hvern aldurshóp, unglingabækur, barnabækur og fullorðinsbækur. Skólabókasöfn fá ekki styrk eins og almenningsbókasöfn heldur skammtar skólastjórinn peninginn. Mér finnst að skólabókasöfn ættu að fá styrki. Einhvern smá pening aukalega. Börn eru skömmuð fyrir að lesa ekki en er kannski ekki boðið uppá eins mikið og þau vilja velja úr. Ég lendi oft í því þegar ég vel mér bók á skólabókasafninu.
Ingunn segir líka að nemendur séu ekki nógu duglegir að biðja hana um aðstoð með að velja sér bók. Nemendur velja bara bókina eftir kápunni en svo er innihaldið kannski ekki það sem þeir vilja lesa. Bókahillurnar uppi á 3. hæð finnst mér henta unglingum betur. Þær eru nýlegri og þar eru nokkrar fullorðinsbækur sem sumir hafa kannski gaman af. Krakkar vilja frekar lesa nýrri bækur en gamlar, skrifaðar af rithöfundum sem þeir þekkja. Mér finnst að það mætti bæta bókasafnið þannig þ.e. kaupa fleiri en eitt eintak af bókunum sem er mikil aðsókn í.
Annars hvet ég alla nemendur í Giljaskóla, sama hversu gamlir þeir eru, að nýta sér eyður og aðra frítíma til að kíkja á hillurnar á 3. hæð eða niður á bókasafnið. Sjá hvað safnið hefur upp á að bjóða, hvort þetta séu bækur sem þið gætuð hugsað ykkur að lesa. Biðjið Ingunni um hjálp við valið og gefið bókinni tækifæri. Takið þátt í lestrarátaki þjóðarinnar.
Daníel Andri Halldórsson 10. KJ