Skólastarf í Giljaskóla hefur tekið nokkrum breytingum þessa vikuna í ljósi breyttra aðstæðna í samfélaginu og gerum við okkar besta til að mæta nemendum í námi.
Allir nemendur skólans eru í námshópum sem ekki blandast. Í hverjum hópi eru að hámarki 20 nemendur. Nemendur 1. - 7. bekkjar fá útiveru á hverjum degi auk einna skipulagðra frímínútna. Lögð er áhersla á að nýta kunnáttu okkar og reynslu af núvitund, enda er það talin góð leið til að takast á við streitu og kvíða.
Breytingarnar á fyrirkomulagið skólastarfs eru mestar á unglingastiginu, þar sem nemendur mæta nú í skólann frá 13-15 á hverjum degi og eru í hefðbundnum kennslustundum á þeim tíma. Hinn tímann af skóladeginum eru stunda nemendur fjarnám og byrja daginn á að hitta kennarann á Google Hangouts Meet. Þar er tekið manntal og farið yfir það sem er á döfinni þann daginn. Síðan er unnið að verkefnum sem hafa verið sett fyrir af kennurum og staðfærð þannig að hægt sé að vinna þau utan skólans. Við munum halda áfram að þróa fjarnámið með nemendum á meðan á þessum takmörkunum á skólastarfi stendur.
Í sérdeildinni gengur lífið sinn vanagang. Nemendur mæta í skólann 8:30 og eru til 13:00. Skólastarfið er með hefðbundnum hætti þótt skortur sé á hreyfistundum í íþróttahúsi og potti. Nemendur og starfsfólk halda sig við vinnuaðstöðuna í sérdeild til að takmarka samskipti við aðra hópa. Allir eru glaðir og duglegir og dagarnir ganga ljómandi vel.
Miðstigið okkar mætir í skólann á milli 8:15 og 12:00 og er þeirra dagur með frekar óhefðbundnum hætti. Krakkarnir taka þessu með mikilli ró og halda áfram að læra eins og ekkert hafi í skorist. Kennararnir eru farnir að færa sig mikið í rafræna kennsluhætti og eru að prófa sig áfram með að hafa kennslustundir þannig að þeir sem heima eru geti líka tekið þátt í námi og leik. Kennarar sem heima eru nýta tæknina til að vera í samskiptum við nemendur og t.d. hlusta á þá lesa upphátt ásamt því að vera með innlögn og kennslu í gegnum netið. Nemendur sem heima eru hafa líka verið að taka þátt í frímínútum í skólanum með sínum vinum með tilstuðlan tækninnar og er það frábært að sjá.
Yngsta stigið er í skólanum á milli 8:00 og 11:45 og þar er reynt að hafa hlutina eins hefðbundna og hægt er og skapa notalega stemningu. Hins vegar er yngsta stigið okkar mikið að vinna með tæknina nú eins og áður og eru að læra nýja hluti á hverjum degi. Nemendur nýta t.d. kennsluforritið Seesaw til að svara og deila verkefnum með kennurum sínum.
Í matsalnum pössum við okkur að hópar blandist ekki. Búið að stúka matsalinn í tvennt til að geta mætt þeirri nauðsynlegu kröfu að námshóparnir hittist ekki í matsal frekar en annars staðar.
Við sjáum fyrir okkur að næstu dagar verði með svipuðu sniði og það er margt nýtt sem þarf að læra og prófa. Við sjáum ákveðin tækifæri í þessu ástandi til að þróa starfshætti okkar. Á sama tíma og við hlökkum til aukins samgangs og samskipta þegar þar að kemur.
Við viljum þakka foreldrum og forráðamönnum innilega fyrir þolinmæðina og stuðninginn sem við höfum fundið fyrir undarfarna daga.