Ég byrjaði í haust í Giljaskóla eftir að hafa verið í Síðuskóla. Upplifun mín af skólanum hingað til hefur verið mjög góð. Flestir starfsmenn eru hressir og skemmtilegir. Það má hins vegar laga margt.
Ég hef mest tekið eftir því að það er mjög erfitt að fá límband lánað hjá flestum kennurum! Það er eins og þetta sé þeim mjög dýrmæt eign. Ég held alla vega að það drepi engan að lána smá límbandsbút. Ég hef líka tekið eftir að inni á klósettunum er nær alltaf vond lykt. Ég nota þau ekki mikið sjálfur en þegar ég ætla mér að nota þau þá er nánast alltaf vond lykt þar inni. Ég veit ekki hvort það er lyktareyðir inni á klósettunum. Ef svo er ekki má alveg kaupa einhvers konar ilmefni. Ef lyktareyðirinn er til staðar þarf að styrkja hann. Á morgnana er fullt af töskum á gólfinu og krakkar sitjandi á ganginum. Það myndi örugglega breytast mikið ef stofurnar væru opnar á morgnana eða ef sófar væru staðsettir á ganginum. Þá myndu kannski flestir bíða inni í stofunni sem þeir væru að fara í og maður ætti ekki á hættu að vera felldur eða detta um einhverjar töskur sem þyrftu ekki endilega að vera þar. Eins er með sófana. Ef krakkarnir sitja í sófunum er líklegra að maður stígi ekki á eða hrasi um fætur annarra. Svo er líka hægt að koma upp einhverskonar skápaplássi. Þá myndir þú einfaldlega geyma töskuna þína í skápnum og taka aðeins með þér þær bækur sem þú þarft í tímann sem þú ert að fara í. Þá væri hægt að geyma föt eða bara hvað sem er þarna. Í staðinn fyrir að taka töskuna með heim gætir þú geymt hana í skápnum og tekið bara heimanámið með þér heim. Þú myndir svo bara koma í skólann og taskan biði þín þar.
Það eru reyndar alveg einhverjir gallar við að gera svona. Til dæmis ef maður gleymir heimanámi í töskunni og hún er í skáp í læstum skóla. Eða ef þú ert með nesti og gleymir því þá úldnar það og lyktin í töskunni verður ekki góð. Þá fyrst þyrfti að kaupa lyktareyði.
Ottó Ernir Kristinsson 10.BKÓ