Á heimilum og í skólum landsins er að finna ótrúlega flóru af allskyns tölvubúnaði. Þetta geta verið borðtölvur, far- og spjaldtölvur, mismunandi snjallir símar, beinar (router), myndlyklar og ýmislegt fleira. Nú eru sjónvörpin meira að segja orðin snjöll líka. Afleiðingin er töluvert breyttur heimur fyrir bæði fullorðna og börn og oft eru það börnin, sem eru alls ófeimin við að prófa allt, sem skilja tæknina betur en fullorðna fólkið. En öllu þessu fylgir ábyrgð og hún liggur auðvitað hjá þeim fullorðnu, helst hjá þeim sem kaupa inn tækin en einnig þeim sem selja þau. Ekki má heldur gleyma ábyrgðinni sem hvílir á kennurum og stjórnendum skólanna sem vilja eðlilega nýta sér kosti tækninnar við kennslu.
Samtaka, svæðisráð foreldra grunnskólabarna í Akureyrarbæ, hefur því ákveðið að standa að málþingi um þessi mál og býður til þess öllum þeim sem koma að þessu tækniuppeldi, foreldrum og forráðamönnum, kennurum, skólastjórnendum, bæjarstarfsmönnum, sálfræðingum, sölufólki, o.s.frv.
Markmið þessa málþings er að fólk komist aðeins betur inn í þennan heim tækninnar og geti áttað sig betur á því hvernig á helst að halda utan um þetta allt saman. Þess vegna vill Samtaka bjóða fyrirtækjum í bænum sem selja tæknivörur og -þjónustu að vera með á málþinginu og kynna fyrir gestum og gangandi hvernig best er fyrir viðskiptavinina að verða virkir kerfisstjórar á eigin heimilum. Þannig geta fyrirtækin sýnt samfélagslega ábyrgð sína í verki. Reiknað er með að fyrirtækin verði með bása eða borð þar sem þau verða með tæki og tól til sýnis og geta þar gefið gestum góð ráð milli þess sem þeir hlusta á fyrirlesara málþingsins.
Á málþinginu verður m.a. rætt um ástæður fyrir eftirliti og stjórnun á tækjanotkun barna en fyrirtækjum í þessum geira verður boðið að kynna hin ýmsu úrræði sem hægt er að grípa til. Fyrirkomulagið verður þannig að fyrirtæki sem vilja taka þátt pláss fyrir bás eða kynningarborð í eða við salinn þar sem fyrirlestrar verða.
Aðalfyrirlesari kvöldsins verður Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingur sem ræðir um netfíkn, (nánar hér). Böðvar Nielsen tvítugur drengur deilir reynslu sinni af netfíkn, Gunnlaugur Guðmundsson segir frá stofnun hóps til stuðnings drengjum í grunnskólum sem ná illa að fóta sig í heiminum utan tölvuleikjanna og við fáum einnig sjónarhorn skólanna og foreldranna.
Fyrirhuguð dagskrá:
- “Kerfisstjórar heimilanna” – Guðjón Hauksson, foreldri og þjónustustjóri tölvudeildar Menntaskólans á Akureyri opnar málþingið. Hann mun einnig stjórna dagskrá kvöldsins.
- “Einkalíf barna og skyldur foreldra” – Áskell Örn Kárason frá Fjölskyldudeild fjallar um rétt barna til að njóta einkalífs og rétt þeirra til að vera vernduð, skyldur foreldra og samfélagsins alls til að vernda.
- Böðvar Nielsen Sigurðarson segir frá reynslu sinni af netfíkn – 20 mín.
- *** Hressing og rúntur milli bása fyrirtækjanna sem ætla að ráðleggja “kerfisstjórum heimilanna” ***
- “Netfíkn: Andlitslaust samfélag” - Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingur
- Gunnlaugur Guðmundsson segir frá stofnun hóps til stuðnings drengjum í grunnskólum sem ná illa að fóta sig í heiminum utan tölvuleikjanna
- “Rafrænir skólar” – Bergþóra Þórhallsdóttir aðstoðarskólastjóri Brekkuskóla
- Pallborð
Í pallborði verða Eyjólfur, Pétur Maack sálfræðingur á Akureyri, Guðjón, Gunnlaugur, Böðvar, Hafþór Freyr Líndal (16 ára meðlimur í Ungmennaráði SAFT) og Áskell frá fjölskyldudeild auk þess sem fulltrúar fyrirtækjanna svara gjarnan fyrirspurnum úr sal.
- Að loknum umræðum býðst foreldrum að halda áfram í rólegheitum með sálfræðingum á bókasafninu eða kennarastofu Brekkuskóla á meðan gengið er frá salnum.