Mikil stemning á bókasafninu

Mikil stemning á bókasafninu

Að vanda er mikið um að vera á bókasafninu okkar í desember. Haldnar hafa verið alls 23 kynningar fyrir nemendur skólans og skólahóp leikskólans á Kiðagili.

Nýútkomnar bækur fyrir viðkomandi aldur voru kynntar og lesið upp úr sumum þeirra. Margir eru farnir að velja bækur á óskalistann sinn.

Kertaljós og piparkökur fullkomna stemninguna og hefur þessi fasti punktur alltaf vakið mikla lukku hjá öllum aldurshópum auk þess að vera lestrarhvetjandi. Þrír af þeim höfundum sem gefa út barna- og unglingabækur hafa heimsótt skólann nýverið. Kristín Helga Gunnarsdóttir höfundur bókarinnar Ríólítreglan og Margrét Örnólfsdóttir sem skrifaði Með heiminn í vasanum komu á vegum Rithöfundasambands Íslands og Kolbrún Aðalsteinsdóttir kom á eigin vegum og kynnti bók sína, Röskvu. Mikið úrval er af íslenskum og þýddum barna- og unglingabókum hér á safninu og einnig í bókabúðunum enda bók sígild jólagjöf.

Skemmtilegu og fróðlegu spilin okkar eru einnig tekin fram þegar við viljum hafa það huggulegt í desember og hafa t.d. vinabekkir haft gaman af því að spila saman ýmis spil.

Á safninu er mikið og vaxandi úrval af spilum af ýmsu tagi.

Óska öllum bókaormum og öðrum gleðilegra (bóka-)jóla

Ingunn skólasafnskennari