Hvort er Giljaskóli góður eða slæmur skóli? Ég kom í Giljaskóla í fjórða bekk og þá fannst mér skólinn hörmulegur. Ég var lagður mikið í einelti og skilinn mikið útundan. Svona hélt þetta áfram þar til í 7. bekk. Þá skánaði ástandið en mér leið samt illa. Skólinn efaðist um hæfni mína að geta tekið eftir í tímum og lært. Ég var sendur í nokkrar skoðanir og í öll skiptin var niðurstaðan sú sama; það var ekkert að, ég þurfti bara eitthvað til að vekja áhuga á náminu. En næstu ár voru himnaríki miðað við hvernig hlutirnir voru búnir að vera. Að fá nýjan kennara á unglingastigi hjálpaði mér mikið og þá batnaði ástandið gríðarlega. Ég fór að hafa meiri áhuga á náminu og átti auðveldara með að læra. Áttundi bekkur var án efa minn besti bekkur til þessa. Aðallega útaf því hvað unglingastigið býr yfir miklu meiri fjölbreytni og hefur marga viðburði. Stuttmyndadagarnir voru mjög spennandi ásamt árshátíðinni. Allt var bara skemmtilegra einhvern veginn. Í 9. bekk var ég miklu virkari í að reyna að eignast vini og tala við fólk og mér var alveg sama um hvað öðru fólk fannst um mig. Ég var ekki lengur hræddur við að vera bara ég og að vera gagnrýndur. Eftir fyrstu önnina leið mér betur en nokkurn tímann áður. Ég var óhræddur við að fara í skólann og ég hlakkaði bara til að fara . Brynjar Karl og Sigfús hjálpuðu mér mikið með námið og virkilega í fyrsta skipti vildi ég læra íslensku og stærðfræði bara útaf þeim. Mér leið eins og Brynjar vildi virkilega hjálpa og aðstoða mig við námið og það hressti mig mikið við. Það nákvæmlega sama á við um Sigfús. Hann er mjög strangur kennari og mörgum líkar það ekki. Jafnvel þótt að hann væri frekar strangur til að byrja með þá hjálpaði hann mér á hátt sem ég hélt að væri hreinlega ekki hægt. Hann útskýrði dæmin svo vel og mér gekk betur í prófum. Ég fékk 4 af 5 í framfaraeinkunn á samræmda prófinu sem er talið vera mjög gott, bara einu frá því að vera framúrskarandi. Mér leið mjög vel með það og hversu langt ég var kominn miðað við hvar ég byrjaði. Allt í allt þá er Giljaskóli góður skóli, jafnvel þótt mín upplifun hafi verið pínu erfið þá er óhætt að segja að Giljaskóli er góður skóli og ég er stoltur að hafa gengið í Giljaskóla.
Vilhjálmur Ingi Arnarsson 10. BKÓ