Nokkur undanfarin ár hafa nemendur í 9.-10. bekk staðið fyrir heimatilbúnum málþingum um ýmis málefni. Málþingin eru hluti af íslenskunámi unglinganna með samþættingu annarra námsgreina svo sem þjóðfélagsfræði í 10. bekk. Undirbúningur hefst á haustönn og afraksturinn er svo kynntur á vorönn. Nemendur starfa eftir ákveðnu vinnuferli sem felur í sér hugstormun, heimildavinnu, öflun gagna, úrvinnslu og æfingar í framsögn.
Málþing 9.bekkjar ber yfirskriftina: Hvað er mikilvægast að nemendur hafi í farteskinu þegar grunnskóla lýkur? Nemendur gera könnun á viðfangsefninu með því að spyrja fjóra einstaklinga á ólíkum aldri. Þeir draga saman svörin, bera þau saman og reyna að draga ályktanir út frá þeim. Niðurstöðurnar eru kynntar á sal skólans. Nemendur í 10. bekk standa fyrir málþingi sem kallast: “Unglingavandamál” – Hver er vandinn? Hvað er til ráða? Nemendur velja á milli nokkurra málefna sem eiga það sameiginlegt að tengjast daglegu lífi unglinga og vera álitin vandamál sem bregðast þurfi við. Sem dæmi má nefna lélega sjálfsmynd, óhófleg tölvunotkun og klámvæðingu. Nemendur setja saman þrískipta umfjöllun um málefnið. Fyrsti hlutinn er almenn umfjöllun. Næst er vandinn greindur. Í lokin reyna nemendur að koma fram með hugmyndir að úrbótum.
Reglulega æfa nemendur sig í rökfærslu. Þessa dagana deila nemendur um hvort nemendur í Giljaskóla búi við lýðræði. Nemendum er skipt í tvo hópa. Annar hópurinn er með en hinn á móti. Á myndinni má sjá Egil Má Vignisson, nemanda í 10. JAB, reyna að sannfæra andstæðinga sína að nemendur skólans búi við lýðræði.