Giljaskóli er góður skóli að mörgu leyti. Það er eitt sem mér finnst að megi bæta. Það er of lítill tími í íþróttum og sundklefum. Íþróttatímar eru bara 40 mínútur og fer oft mikið af tímanum í eitthvað annað.
Strax og venjulegur skólatími er búinn hefst klefatíminn sem er 10 mínutur. Þá eiga nemendur eftir að labba niður af þriðju hæð og niður í íþróttahús. Þegar við erum komin niður í íþróttahús þarf að bíða eftir að okkur sé hleypt inn í klefann. Þá eigum við eftir að klæða okkur í íþróttafötin og gera okkur tilbúin. Stundum er okkur hleypt of seint inn í klefa eða inn í sal sem tekur líka af íþróttatímanum.
Loksins þegar við erum komin inn í sal á eftir að lesa upp nöfn nemenda og hita upp sem tekur sinn tíma. Oft er verið að kynna fyrir okkur íþrótt sem þarf að kenna og fara yfir grundvallaratriði og ef íþróttin er liðaíþrótt þá á eftir að skipta í lið. Þegar öllu því er lokið byrjum við en þá er oft lítill tími eftir. Mér finnst íþróttatímarnir mjög skemmtilegir en það yrði skemmtilegra að hafa þá aðeins lengri. Það myndi strax muna um að lengja íþróttatímann um 10 mínútur.
Þegar um er að ræða sundtíma þá er það klefatíminn sem mörgum finnst of stuttur. Það er mjög erfitt að ná að fara í sturtu og klæða sig þegar að við eigum bara 10 mínútur í klefanum til þess að koma okkur upp í rútu. Oft er biðröð eftir sturtu því allar sturturnar eru í notkun. Þá á eftir að þrífa á sér hárið, þurrka sér og klæða sig í fötin. Stelpur og stundum strákar eiga eftir að greiða á sér hárið og snyrta sig. Stundum eru frímínútur í klefatímum og þá þarf ekki að drífa sig jafn mikið en ef það er ekki finnst mér og mörgum öðrum tíminn of stuttur. Oft eru krakkar að missa af rútunni og koma því of seint í næsta tíma.
Mín skoðun er sú að það mætti lengja íþróttatímana því að þá væri meiri tími til að stunda þá íþrótt sem er lagt fyrir í tímanum. Einnig tel ég að ef lengt væri tíma í sundklefum myndu krakkar ekki missa jafn oft af rútunni og mæta of seint í tíma. Að öðru leyti finnst mér Giljaskóli mjög góður skóli. Mér líður vel og lítið annað sem mér finnst að þurfi að bæta.
Anna Þyrí Halldórsdóttir 8.RK