Óhófleg tölvu- og símanotkun

Unglingar í dag eiga langflestir flotta síma og tölvur. Þeir keppast við að eiga sem flottustu og dýrustu tækin. Þetta er gott dæmi um lífsgæðakapphlaup unglinga. En það sem ég ætla aðallega að fjalla um er að unglingar og bara fólk almennt eyðir óheyrilega miklum tíma í tölvu eða síma og hversu slæmar afleiðingar það getur haft. Hversu mörg ykkar fara út úr húsi án þess að hafa símann með ykkur? Er það nauðsynlegt að hafa alltaf símann með sér?

Upphaflega voru símar aðeins notaðir til að tala í þá og senda sms. Smám saman, eins og verður alltaf, fór tæknin að aukast. Það komu snjallsímar. Nú getur maður gert nánast allt með símanum sínum. Ekki nóg með að maður geti hringt, tekið myndir, verið í leikjum og hlustað á tónlist þá getur maður talað við símann sinn og beðið hann um að hringja í ákveðinn einstakling. Hvernig ætli þetta verði eftir nokkur ár? Þessi aukna tækni hefur án efa marga kosti. En gallarnir eru líka þó nokkrir. Þegar fólk fer út að borða tekur það símann með sér.  Það situr og er í símanum á meðan það bíður eftir matnum. Þegar maturinn kemur þarf að taka mynd af honum og setja á Instagram eða senda Snapchat áður en hægt er að byrja að borða. Auðvitað eru ekki allir svona og þetta er kannski ýkt dæmi en horfið í kringum ykkur næst þegar þið farið út að borða. Hversu margir eru í símanum sínum einhvern tímann á meðan þeir eru þarna? Hvað varð um það að spjalla? Símar eru líka orðið vandamál í kennslustundum í skólanum. Margir eru í símunum í stað þess að fylgjast með í tímum og getur þetta því haft slæm áhrif á lærdóminn.

Það fyrsta sem margir gera þegar þeir vakna á morgnana er að kíkja á símann sinn. Það er líka það síðasta sem þeir gera á kvöldin. Ég viðurkenni að ég geri þetta. Þetta er eitt einkenni símafíknar. Það er að verða vandamál hvað fólk og þá kannski sérstaklega unglingar eyða miklum tíma í símanum. Þegar ég var lítil þá lék ég mér með Barbídúkkur og Bratz. Ég fékk ekki síma fyrr en ég varð 10 eða 11 ára. Hins vegar er litla frænka mín sem er 7 ára komin með síma. Hún á ekki bara síma heldur líka Ipad. Hún býr fyrir sunnan þannig að ég hitti hana svona 2 sinnum á ári. Þegar við hittumst í sumar þá sátu hún og bróðir minn sem er 10 ára, hlið við hlið hvort í sinni spjaldtölvunni. Er þetta góð þróun? Auðvitað léku þau sér líka og það eru alveg til þroskandi leikir til að vera í símunum eða á netinu. En er það eðlilegt að það fyrsta sem bróðir minn gerir þegar hann kemur heim úr skólanum er að taka fram spjaldtölvuna eða símann án þess einu sinni að heilsa? Hann er ekki einu sinni unglingur. En þetta verður fíkn og ekki bara hjá unglingum. Samkvæmt grein sem ég las á netinu þá er talið að farsíminn sé 3. algengasta fíkniefnið í heiminum. En hvað er það sem veldur því að maður þarf alltaf að vera að kíkja á símann eða vera í símanum? Ég held að eitt af því sem margir eru að kíkja á í símanum er facebook. Eða þannig er það hjá mér. Ég held að stór hluti unglinga fari á hverjum degi á facebook annað hvort í gegnum tölvuna eða símann og margir oft á dag. Í annarri grein sem ég fann er skrifað að það sé of mikið að fara 3 sinnum á dag og ef þú ferð 5 sinnnum eða oftar ertu orðin/n háð/ur facebook.  Inni á síðu sem heitir Fíknir er hægt að lesa meira um þetta og þar eru jafnframt talin upp nokkur einkenni síma- og facebookfíknar og finnst mér líklegt að einhverjir kannist við það sem er talið upp þarna. Netið hefur einnig áhrif á sjálfsmynd unglinga og getur því ýtt undir hættulega hegðun svo sem átröskun eða sjálfsskaða. Áströlsk rannsókn sýndi fram á að því meiri tíma sem unglingsstúlkur eyddu á netinu því óánægðari voru þær með líkama sinn. En það sem er mest sláandi við afleiðingar aukinnar símanotkuna að mínu mati,  er að samkvæmt mbl.is deyja fleiri ungmenni á þjóðvegum Bandaríkjanna, af völdum símanotkunar en af völdum ölvunar. Ég tel það því vera ljóst að þetta er orðið vandamál. Það er ekkert að því að eiga flottan síma og vera í honum en þú verður að hafa stjórn á þessu. Alveg eins og það er allt í lagi að fá sér í glas stundum svo lengi sem að þú getur stjórnað því hversu mikið þú drekkur.

En hvað er hægt að gera í þessu? Það sem vantar er vitundarvakning. Við fáum marga fyrirlestra og sjáum í fréttum og annarstaðar afleiðingar ofdrykkju og fíkniefna. En við fáum lítið að heyra um óhóflega tölvu- og símanotkun. En eins og þið vitið þá hindra allir þessir fyrirlestar ekki endilega að allir unglingar byrji að drekka snemma eða nota fíkniefni. En þetta er allavega byrjunin. Með yngri krakka er kannski hentugast að foreldrar reyni að stýra tækjanotkun barnanna sinna. En það má ekki gleyma því að foreldrar og unglingar eru fyrirmyndir yngri barna og er  því líklegt að ef börn eru umkringd fólki sem er alltaf í símunum þá byrji þau líka að nota síma og spjaldtölvur mjög mikið. Þau fá þau skilaboð að þetta sé í lagi. Með öðrum orðum verður það eftirsóknarvert að vera í símum eða tölvum þegar fyrirmyndirnar nota tækin svona mikið. Alveg eins og unglingar sem eiga foreldra sem reykja  eða drekka mikið eru líklegir til að feta í sömu fótspor. Gerið þið ykkur grein fyrir hvaða áhrif síma- og tölvunotkun getur haft á ykkur? Til dæmis getur það skert félagsleg tengsl þ.e.a.s. maður hittir vinina sjaldan og hættir í íþróttum. Eins og ég nefndi áður getur þetta haft áhrif á skólann og námsárangur og fullyrðir íslenskur sálfræðingur að tölvufíkn sé algengasta orsök þess að unglingar hætti í framhaldsskóla. En einnig getur þetta valdið svefntruflunum og öðrum líkamlegum vandamálum. Þeir sem misnota netið geta líka glímt við geðræn vandmál svo sem kvíða eða þunglyndi.

 

Ég tel það því vera alveg ljóst að þetta er orðið vandamál og eitthvað verður að gera. Áður en ég byrjaði á þessari grein var mér ekki ljóst hversu skaðleg síma- og tölvunotkun getur verið. Þess vegna tel ég að byrja verði að fræða börn og unglinga um hvaða áhrif þetta getur haft á þau og framtíðina.

 

Eva María Aradóttir 10. SKB

Greinin  er unnin upp úr málstofuverkefni sem nemendurr 10. bekkjar fluttu munnlega á heimatilbúnu málþingi í skólanum í febrúar.