Sjálfsmynd unglinga

Hvað er sjálfsmynd ? Þetta er eflaust spurning sem margir vita svarið við en þó ekki allir. Sjálfsmynd er bæði hvernig við sjáum okkur og hvernig við speglum okkur í samfélaginu. Sjálfsmyndin er okkar innri maður. Yfirleitt er ástæðan fyrir því að fólk er með lélega sjálfsmynd sú að það telur að það lýti ekki nógu vel út, að það sé of feitt eða of grannt eða ekki nógu gáfað.
Margt getur haft áhrif á sjálfsmyndina okkar en aðallega eru það þó öll þessi tímarit, netsíður og allt þetta fræga fólk sem allir líta upp til.

Sjálfsmynd margra unglinga er mjög slæm. Sérstaklega hjá unglingsstelpum. Þetta getur verið mikið vandamál þar sem sjálfsmynd er svo stór þáttur í því hvernig við erum. Það hrjáir oft þá sem eru með lélega sjálfsmynd að þeir gera ekki alla hluti sem þeir vilja gera vegna þess að þeir hafa ekki trú á sjálfum sér. Rannsóknir sýna að óánægja með eiginn líkama tengist oft vandamálum bæði líkamlegum og andlegum, til að mynda sálrænum erfiðleikum og geðröskunum á borð við átröskun, þunglyndi og kvíða. Rannsóknir hafa jafnframt bent til þess að líkamsímynd tengist sterkt sjálfsmynd. Þetta tel ég að sé vegna allra staðalmyndanna sem er haft fyrir okkur.
Eins og eflaust allir hafa tekið eftir þá eru margar stelpur alltaf í einhverskonar megrun. Hvort sem það er að borða hollar, borða minna, hreyfa sig meira og sumar ganga svo langt að borða bara hreinlega ekki neitt. Það getur síðan leitt til hættulegra sjúkdóma eins og átröskun. Niðurstöður íslenskrar rannsóknar sem gerð var á áhættu fyrir átraskanir meðal stúlkna og ungra kvenna á aldrinum 13 til 24 ára sýndi að 46,9% stúlkna í rannsókninni mældust í áhættuhópi fyrir átraskanir. Þetta tel ég að sé vegna allra tískutímaritanna og  fræga fólksins sem kemur fram í blöðum eða á netinu og lítur fullkomlega út. Þessar myndir eru margar, ef ekki allar, „phótóshopaðar”. Einnig er mikið af þessu fræga fólki og módelunum sem koma fram í tískutímaritum með átröskun. Þetta fólk er líka allt með förðunarfólk og stílista til að hjálpa sér að líta sem best út. Unglingsstelpur líta upp til þessa fræga fólks og reyna að líta fullkomlega út eins og það. Það tekst hinsvegar ekki þar sem þetta fólk lítur ekki svona út nema með allri þessari hjálp sem gerir það að verkum að þær fá lélega sjálfsmynd.

Einnig fá oft stelpur sem eru mjög grannar lélega sjálfsmynd . Það getur verið vegna þess að þær vilja ekki vera svona grannar en þær geta ekki fitnað. Það er eins og allir vilji líta öðruvísi út en þeir gera. En þau geta ekki breytt því. Hvert sem litið er er verið að tala um útlit, hvað sé flott og hvað ekki. Þú þarft ekki annað en að fara og skoða föt á netinu eða opna tímarit og þar eru öll módelin hávaxin og tággrönn. Í tímaritunum er einnig endalaust verið að tala um hvað sé í tísku og hvað ekki. Stundum er meira að segja sagt að einhver föt eða annað sé ljótt. Þetta finnst mér alveg fáránlegt vegna þess að hver dæmir hvað sé ljótt og hvað ekki?  Þú getur jafnvel farið inn á einhverjar netsíður eins og facebook eða tumblr og þar eru gerðar óraunhæfar væntingar um hvernig maður á að vera. Tumblr tel ég einnig að sé ástæða fyrir lélegri sjálfsmynd. Þar eru stelpur og strákar að setja inn myndir, myndir sem eru af öllu mögulegu. Langoftast eru það þó einhverjar grannar fyrirsætur eða einhverjar fullkomnar stelpur og svo er myndunum deilt áfram. Þetta er allt svo langt frá raunveruleikanum. Það lítur enginn svona út en unglingsstelpur skilja það ekki og reyna allt til þess. 

Ég held að til þess að stoppa þessa útlitsdýrkun þurfi hreinlega að hætta að gefa út tímarit með phótóshoppuðum myndum. Það á bara að hafa myndirnar sem eru teknar af fólkinu og ekki laga þær þannig að það verði ekki einn galli við þær. Það þarf líka að gefa út tímarit með konum í öllum stærðum. Ekki bara þessar tággrönnu stelpur sem langflestar eru með mjög hættulega sjúkdóma. Það mundi eflaust lækka hlutfall stelpna sem eru ósáttar með líkamann sinn sem líta upp til þessara kvenna og mundi það efla sjálfstraust þeirra. Og þar af leiðandi myndu þær fá betri sjálfsmynd. Það þarf bara að hætta þessari útlitsdýrkun og hætta að gera þessar óraunhæfu kröfur um það hvenig fólk á að líta út.  Við fáum aðeins eitt líf og við ættum að njóta þess fyrir okkur sjálf og hætta að hugsa um hvað öðrum finnst og hætta að reyna að standa undir væntingum annarra.

Sjálfsmyndir spila stóran þátt í því hvernig við erum og við ættum því að hætta allri þessari útlitsdýrkun. Þessi tímarit og annað ætti að sýna hvernig raunveruleikinn er og einnig þarf fólk bara hreinlega að skilja að það er enginn eins og fólkið í tímaritunum eða sjónvarpinu. Þetta er allt meira og minna „phótóshop”!

 

Katla Hrönn Stefánsdóttir 10. JAB

Greinin  er unnin upp úr málstofuverkefni sem nemendurr 10. bekkjar fluttu munnlega á heimatilbúnu málþingi í skólanum í febrúar.