Skólaíþróttir

Íþróttir eru mikilvægar fyrir krakka á grunnskólaaldri. Hreyfing skiptir mjög miklu máli fyrir heilbrigði og vellíðan.  Við nemendur í Giljaskóla erum mjög heppnir að hafa svona góða íþróttaaðstöðu í sama húsi og skólinn.

Í Giljaskóla eru íþróttir kenndar tvisvar í viku. Mér finnst að íþróttir mættu vera lengri til dæmis í eina klukkustund eða í tvöfaldan tíma af því að upphitun tekur dálítinn tíma. Einnig tekur tíma að útskýra leikina og þá er svo stuttur tími eftir til að fara í leiki eða í boltaíþróttir. Ef íþróttatímarnir væru tvöfaldir yrði meiri tími fyrir leikina og möguleiki á því að teygja vel á vöðvunum í lokin. Mér finnst líka mega endurnýja hluti sem við notum í íþróttum. Til dæmis eru sumir boltar orðnir illa farnir og slitnir. Þá mættu líka vera til rúllur í íþróttasalnum til að nudda vöðvana.

Mér finnst próf í íþróttum í grunnskóla ekki nauðsynleg svo sem píptest. Krakkar geta orðið stressaðir eða hræddir um að verða fyrst úr leik. Við erum að æfa mismunandi íþróttir, sumir æfa engar íþróttir og því höfum við misjafnlega gott þol og styrk.  Píptest gengur út á það að hlaupa eins margar ferðir og þú getur og ef þú ert ekki komin yfir línuna þegar pípið heyrist ertu úr leik. Mér finnst að íþróttir eigi að vera meira til skemmtunar til að þjappa hópnum saman og hafa gaman.

Í Giljaskóla er sund kennt einu sinni í viku. Á unglingastigi er kynjaskipt í sundi og í íþróttum sem getur verið mikill kostur. Mér finnst að sundtímar á unglingastigi mættu vera færri heldur en á yngsta stigi og miðstigi.  Annað hvort að hafa þá fyrir áramót eða eftir áramót eða annan hvern fimmtudag. Við erum öll orðin synt og þurfum ekki jafn mikla sundkennslu eins og yngri krakkarnir.

Mér finnst íþróttatímar í grunnskóla mikilvægir til að fá smá pásu frá lærdómi og til að hreyfa sig. Þess vegna finnst mér að þeir megi vera lengri eða fleiri og þá væri hægt að fækka sundtímum á móti.

 

Elva Ragnheiður Baldursdóttir 8. RK