Við Íslendingar erum svo heppnir að samkvæmt íslenskum lögum er börnum skylt að ganga í skóla, án endurgjalds. Fyrst er það grunnskóli, svo menntaskóli og svo fara einhverjir í háskóla á meðan aðrir fara að vinna. Á meðan í mörgum öðrum löndum komast börn ekki einu sinni í grunnskóla.
Börn byrja í grunnskóla þegar þau verða sex ára og byrja á þessum grundvallaratriðum, lesa, skrifa og allt þetta. Þá eru allir krakkar yfirleitt mjög spenntir og duglegir. En þegar við byrjum í þriðja til fjórða bekk, byrjar áhuginn að minnka og þá sérstaklega hjá strákum. Við byrjum að læra stærðfræði, málfræði í íslensku og allt þetta sem mjög fáir nenna að gera. Þá held ég að strákar byrji að sækja aðeins meira í að trufla í kennslu og allskonar svoleiðis vesen. Í rannsókn sem Inga Dóra Sigfúsdóttir félagsfræðingur gerði, komst hún að því að ein helsta ástæða þess að strákar dragast aftur úr námi er í rauninni bara foreldrarnir. Það er talið að strákar fái minni stuðning heima við t.d. að þeir fái ekki nægilega mikla hjálp við heimanám. Svo er það bara munurinn á eftirliti með strákum og stelpum dagsdaglega. Foreldrar fylgjast t.d. minna með sonum sínum en dætrum. Þeir þekkja oft síður vini sonanna heldur en dætra og þá hugsanlega enda þeir í einhverju rugli. En af hverju eru stelpur að taka fram úr í námi. Inga Dóra komst að því að þetta hafi þróast þannig að á þeim sviðum sem stelpur stóðu verr að vígi eins og í stærðfræði og raungreinum, hafi þær verið að sækja í sig veðrið og séu jafnvel búnar að taka fram úr. Hinsvegar er þróunin ekki alveg eins hjá strákunum í þeim fögum sem þeir stóðu verr að vígi, eins og í lestrarfögum og tungumálum. Munurinn hefur ekkert minnkað og eiginlega bendir allt til þess að það sé ekki að fara að gerast á næstunni. Ef litið er á heildarmyndina eru stelpurnar eiginlega bara að auka forskotið ef eitthvað er. En strákunum líður líka oft verr í skólanum og eru líklegri til að lenda í útistöðum við aðra.
Svo er komið að því að leysa vandann. Það bendir eiginlega allt á einungis tvo hluti. Fyrst er það fjölskyldan. Fjölskyldan er kannski megin ástæða af hverju einum nemanda gengur betur en öðrum. Til dæmis er oft á tíðum mjög lítill námslegur stuðningur heima við. Strákunum er oft ekki kennt að hafa skólann í fyrsta sæti í forgangsröðinni. Þeir setjast niður og ætla að vera rosalega duglegir t.d. í stærðfræði og svo skilja þeir ekki það sem þeir eiga að gera. Þá gefast þeir upp og fara í tölvuna eða eitthvað álíka. Með svona aðferð er næstum því ómögulegt að ná árangri í námi. Og svo beinist þetta líka mjög mikið að skólakerfinu sjálfu. Það er mjög sérstakt þetta kerfi þar sem einblínt er á bóklegan lærdóm. Þessi bóklegi lærdómur finnst mér vera langt frá því að henta öllum. Meðal annars sést það á leikjum kynjanna úti í frímínútum. Strákar fara mjög oft í fótbolta þar sem allir eru að hamast við að ná boltanum. Á meðan eru leikir stelpnanna mun rólegri þar sem þær eru yfirleitt færri og oft bara ein að framkvæma meðan hinar bíða í röð þangað til kemur að þeim. Svona mætti lengi telja.
Eitthvað þarf að gera hvort sem það er að breyta skólakerfinu eða reyna að fá foreldra til að hjálpa börnum meira við heimanámið. Allavega er þetta skólakerfi aðeins of rólegt og leiðinlegt þar sem strákar eiga mjög á brattan að sækja
Valþór Ingi Karlsson 10. IDS
Greinin er unnin upp úr málstofuverkefni sem nemendurr 10. bekkjar hafa unnið að í Þjóðfélagsfræði og munu flytja munnlega á heimatilbúnu málþingi í skólanum seinna á önninni.