Sund og íþróttir eru greinar sem kenndar eru í flestum ef ekki öllum grunnskólum landsins. Á Íslandi eru fjölmargar sundlaugar og flestar í góðu ástandi og því eru margir duglegir að fara í sund. Eldra fólk er sérstaklega duglegt að liðka sig í sundi en hinsvegar er skólasund ekki vinsælt meðal unglinga, sérstaklega ekki stelpna. Er eitthvað hægt að gera til að bæta mætingu í skólasund?
Á unglingastigi í Giljaskóla er sund kennt einu sinni í viku í 40 mínútur í senn. Sundkennslan er strax á eftir íþróttum sem er mjög þægilegt. Þá getur þú farið beint í sund og skolað af þér eftir leikfimi. Leikfimi er kennd tvisvar í viku og er mun vinsælli en sund. Einvarður Jóhannsson, íþróttakennari í Giljaskóla, er duglegur að kynna mismunandi íþróttagreinar. Hann leggur meiri áherslu á að nemendur leggi sig fram í tímum og hafi gaman af heldur en að þeir séu góðir í öllu. Ég er ánægð með íþróttatímana en finnst að það mætti gefa lengri tíma til að fara í sturtu, klæða sig og (ef þú er stelpa) kannski að mála sig. Tíu mínútur eru hins vegar of stuttar hvort sem þú málar þig eða ekki. Þær mínútur gefa manni ekki tíma til að þvo sér almennilega-hvað þá bleyta hárið!
Eftir seinni leikfimitímann þurfa nemendur að fara í rútu sem keyrir þá í sund. Rútubílstjórarnir eru langflestir glaðir og þolinmóðir og tilbúnir að bíða aðeins ef manni seinkar. Ég hugsa að ein aðalástæðan fyrir því að nemendur mæta lítið í sund er að það er kalt í lauginni. Þá finnst flestum þeir geta synt og ekki nauðsynlegt að fara einu sinni í viku til þess eins að gera eitthvað sem þeir kunna. Ekki eru þó allir tímarnir eins. Þuríður Helga Þorsteinsdóttir, sundkennari í Giljaskóla, leyfir okkur stundum að vera lengi í pottinum, fara í leiki eftir að hafa synt ákveðnar vegalengdir og svo einu sinni til tvisvar á önn fáum við frjálsan tíma. Auðvitað þurfum við að synda. Annars væri ekki mikill tilgangur með sundtímunum. Hins vegar væri hægt að fara í einhverskonar þrautir eða leiki s.s kýló eða boðhlaup sem ýta við keppnisskapinu og fá krakkana til að synda.
Eftir sund er hins vegar frekar lítill tími til að græja sig og oft er maður stressaður þar sem flestar stelpurnar þvo sér um hárið. Rútubílstjórarnir eru hins vegar þolinmóðir eins og áður kom fram og passa að skilja ekki neinn eftir.
Það er gott að við fáum tækifæri í skólanum til að hreyfa okkur, læra sund og læra mismunandi íþróttir í leikfimi. Það er nauðsynlegt að kunna að synda og finna þörfina fyrir að stunda hreyfingu. Það er hægt að hafa leiki í sundi til að auka mætingu. Það eru flestir til í að fara í einhverja skemmtilega leiki. Það eru ekki allir skólar með jafn góða aðstöðu fyrir íþróttir eða hafa sund einu sinni í viku eins og Giljaskóli.
Elísabet Jónsdóttir 9. SAB