Það er svo margt gott sem við gerum

„Unglingar nú á dögum vilja bara lifa í vellystingum. Þeir kunna ekki mannasiði, neita að hlýða skipunum, bera enga virðingu fyrir þeim fullorðnu og nota tímann til að kjafta saman þegar þeir ættu að vera að vinna. Ungt fólk stendur ekki lengur upp þegar eldra fólk kemur inn í herbergið. Þeir andmæla foreldrum sínum, gorta í veislum, úða í sig sætindum þegar þeir sitja við matarborðið, krossleggja fætur og rífa kjaft við foreldra sína.“

Fyrst þegar ég las textann hér að ofan giskaði ég á að hann að væri skrifaður núna fyrir stuttu. Ég varð því frekar hissa þegar ég sá að maður að nafni Sókrates hafði sagt þetta fyrir rúmum 2000 árum! Þetta finnst mér gott dæmi um viðhorf margra fullorðinna í garð unglinga. Það er alveg sama hversu margir unglingar standa sig vel, það er alltaf fjallað miklu meira um þennan hluta sem er svokallaðir „vandræðaunglingar.“ Það er alltof stór hluti fullorðinna sem kemur fram vð unglinga af virðingarleysi vegna þess að þeir eru einfaldlega unglingar.

Unglingsárin eru árin sem barnið breytist í fullorðinn einstakling. Unglingurinn prófar sig áfram, fær meira frelsi og breytist bæði andlega og líkamlega. Það að prófa sig áfram getur verið á marga vegu. Hvað get ég verið lengi úti? Get ég svarað foreldrum mínum án þess að vera skömmuð? Hvað kemst ég upp með mikið?

Það er nú samt þannig í langflestum tilfellum að þeir prófa mörkin og skoða hvað er í lagi. Það held ég að mörgum fullorðnum þyki óþægilegt. Barnið er ekki lengur barn. Það svarar fyrir sig, hlustar ekki jafn mikið á mömmu og pabba og hagar sér meira eins og fullorðinn einstaklingur en þó á marga vegu eins og barn sem ekki veit allt. Unglingar nútímans eru ekki fyrsta kynslóðin sem prófar sig áfram og kynslóðin þar á undan var ekki sú fyrsta. Eins og kom fram í textanum hér að ofan hefur alltaf verið „vesen“ með unglinga. Auðvitað hefur samfélagið breyst. Hefðir, viðhorf og skoðanir samfélagsins breytast með tímanum, umræður opnast og margt sem áður var talið óeðlilegt eða eitthvað til að skammast sín fyrir hefur með auknum umræðum komið í ljós að það var ekkert til að skammast sín fyrir. Hvernig stendur þá á því að enn koma alltof margir illa fram við unglinga? Er ekki búið að sýna fram á að unglingar eru ekki slæmt fólk? Er ekki búið að sanna að það eru ekki allir unglingar drekkandi, dónalegir og kunna enga mannasiði. Það er aðeins brot, alveg eins og það er brot af fullorðna fólkinu, sem ekki er í lagi. Við dæmum nú ekki fullorðna fólkið af þessu broti sem framleiðir dóp, svindlar á fólki o.s.frv. Hvað er þá hægt að gera til að breyta viðhorfinu? Það eru nú auðvitað ekki allir fullorðnir sem tala niður til unglinga en alltof margir. Maður sér það nú bara best þegar það er unglingur í afgreiðsustarfi. Það er talið „í lagi“ að hella sér yfir hann ef eitthvað gerist. Bara það að ruglast, telja vitlaust eða bara ef viðkomandi er í slæmu skapi þá bitnar það alltof oft á unglingnum. Af hverju er fólk svona fljótt að gleyma? Það eru auðvitað ekki foreldrar unglinga sem eru að þessu. Þetta er mest kynslóðin fyrir ofan. Kynslóðin sem er búin að vera unglingur og búin að ala upp unglingana sína. Kynslóðin sem heldur að samfélagið fari bara versnandi. Þarf að rifja upp fyrir fólki hvað kynslóðin á undan gerði mikið rangt?  Eða þarf kannski einfaldlega að sýna meira hvað unglingar eru að gera mikið gott? Hvað margir eru að standa sig vel? Að þessi unglingur sem fólk þekkir er ekki undantekning heldur hluti af stórum hóp unglinga sem vill standa sig vel og vill láta koma fram við sig af virðingu? Það þarf kannski frekar að hafa eina frétt líka um eitthvað gott sem unglingar eru að gera þegar sett er inn frétt um unglinginn sem fannst uppdópaður einhversstaðar. Það er svo margt gott sem við gerum og getum gert. Það þarf bara að fjalla um það svo fólk viti af því og gefa okkur fleiri tækifæri til að sanna okkur. Ef ég fengi bara fréttir um fullorðið fólk sem væri að selja dóp og um hvað fullorðið fólk væri í mikilli klessu þá myndi ég á endanum líklega byrja að trúa því. Ég myndi byrja að halda að þeir fullorðnu sem ég þekkti væru undantekningarnar. Við þurfum að byrja á að sýna fólki hverjir eru undantekningar, sýna að það er ekki í lagi að öskra á ungling því hann gerði eitthvað sem viðkomandi líkaði ekki. Það þarf að breyta viðhorfunum svo að unglingur framtíðarinnar þurfi ekki að fá einhverja konu eða mann hvæsandi á sig því hann tók frá sæti á góðum stað í bíó.

 

Unglingar eru upp til hópa flott ungt fólk sem langar að sanna sig. Það vantar bara að gefa tækifæri og leggja minni áherslu á unglingana sem eru í vandræðum. Það þarf að breyta viðhorfi samfélagsins til að komandi kynslóðir unglinga geti haft það enn betra en við höfum það núna. Ég ætla að enda þetta á setningu sem ég fann inn á netinu og fannst eiga svo vel við:

„Unglingar eru misskildasta fólkið. Það er komið fram við þá eins og börn en ætlast til þess að þeir hagi sér eins og fullorðnir.“

Elísabet Jónsdóttir 10. SKB

 

Greinin  er unnin upp úr málstofuverkefni sem nemendurr 10. bekkjar fluttu munnlega á heimatilbúnu málþingi í skólanum í febrúar.