Fljótlega í byrjun grunnskóla byrjar sundkennsla og stendur hún út alla skólagönguna. Krakkar á Íslandi eru mjög heppnir að fá þessa kennslu á yngsta- og miðstigi grunnskóla því að í mjög mörgum löndum er engin sundkennsla. Nauðsynlegt er fyrir alla að læra sund til að geta bjargað sér ef þannig aðstæður bera að. En gætum við ekki nýtt tímann í eitthvað annað á unglingastigi en að vera með sundkennslu því þar gerir maður alltaf það sama og lærir ekkert nýtt?
Þegar sundkennsla hefst á yngsta stigi eru strákar og stelpur saman í sundi og þannig heldur það áfram á miðstigi. Þegar maður fer upp á unglingastig er gerð breyting á því og er nemendum þá kynjaskipt. Mér persónulega finnst engin þörf á sundkennslu á unglingastigi af því að krakkar á Íslandi eru orðnir syndir á þeim aldri. Annarsstaðar í heiminum fá krakkar enga sundkennslu og eru því mjög mörg börn alveg ósynd sem er mjög slæmt. En þarf þessi kennsla virkilega að vera til staðar út alla skólagönguna? Er ekki nóg að hafa hana fram að unglingastiginu því maður er nú orðinn vel syndur þá? Og ekki er maður að læra eitthvað nýtt í sundkennslunni þegar maður er kominn á þennan aldur. Mér finnst alveg vera kominn tími til að endurskoða þessa kennslu í grunnskólum landsins. Væri ekki nær að nýta tímann í einhverja aðra kennslu, til dæmis fleiri valgreinar? Með því værum við að fá fleiri tækifæri til að finna okkar áhugasvið. Þannig gætum við undirbúið okkur betur fyrir framtíðina með því að fá tækifæri til að kynnast fleiri starfsgreinum.
Að sjálfsögðu er áhugi krakka misjafn og sumum finnst bara mjög skemmtilegt að fara í sund á meðan öðrum finnst það ekki. Er ekki kominn tími á breytingar og að stokka upp þessari kennslu á unglingastigi? Mér finnst að sundkennsla ætti að vera valáfangi þegar upp á unglingastig er komið.
Lilja Björk Ómarsdóttir 9.RK