Þema – Vistvænt umhverfi
Dagana 11. - 13.október verða árlegir þemadagar í Giljaskóla.
Markmið með þemavinnu er m.a. að brjóta upp hefðbundið skólastarf og gefa nemendum og starfsmönnum tækifæri til að kynnast hver öðrum og vinna saman þvert á aldur. Vinnulotur eru frá kl. 8.30 til 12:30 (mæting í skóla kl 8.00)
Þemað sem valið var að þessu sinni er Vistvænt umhverfi. Ein af röksemdunum fyrir vali á þemaefni að þessu sinni er að skólinn stefnir að því að verða grænfánaskóli næsta ár og tekur vinnan mið af því.
Að þessu sinni eru þátttakendur nemendur í 2.- 7. bekk ásamt sérdeildinni. Settar verða upp fimm stöðvar sem hver um sig býður uppá ýmis verkefni. Á hverri stöð geta verið um 30-80 nemendur. Hver nemandi velur sér þrjár stöðvar þessa daga.
Á hverri stöð verða ýmis viðfangsefni þannig að vinnan ætti að verða fjölbreytt og áhugaverð og vonandi finna allir eitthvað við sitt hæfi.
Nemendur verða í ýmsum vettvangsferðum og ýmist inni eða úti.
Aðalstöðvarnar verða:
v Endurvinnsla I
v Endurvinnsla – Rusl II
v Hönnun og byggingar
v Vatnið
v Rjóðrið – Skógurinn
Í smiðjunni um Endurvinnslu I ætlum við að nýta ýmiskonar umbúðir og afganga til að búa til skemmtilega muni s.s blómapotta, pennastatíf, sokkabrúður og fleira.
Í smiðjunni Endurvinnsla II er einnig ætlunin að vinna á sama átt með umbúðir og afganga til að búa til skemmtilega muni s.s myndaramma, ýmiskonar pappírsbrot, hekla, vefa og prjóna úr t.d. plastpokum.
Í smiðjunni um Vatnið verður alhliða fræðsla um vatnið og nauðsyn þess fyrir manninn og allt líf á jörðinni. Þar verður horft á myndband, skoðaðar fræðibækur, ýmsar spurningar um vatnið settar fram og leitað svara við þeim.
Í Rjóðrinu verður umgengi um skóginn til umfjöllunar og spáð í hvað þarf að gera til þess að gera hann aðgengilegan og njóta hans án þess að honum sé spillt. Horft verður á vistvæna og sjálfbæra nýtingu skógarins til heilsueflingar fyrir mannlífið.
Í smiðjunni Byggingar og hönnun munu nemendur vinna sameiginleg verkefni úr endurnýtanlegu efni í tvívídd og þrívídd. Reynt verður að endurskapa þekktar byggingar eða gera nýjar.
Mikilvægt er að gætt sé að klæðnaði allra nemenda því veturinn virðist ætla að gera vart við sig snemma. Allir fara út í frímínútur.
Sérstaklega þarf að huga að klæðnaði þeirra sem verða í Rjóðrinu, stígvél, pollagalli og hlý föt nauðsynleg. Einnig koma með auka sokka og etv. fleiri aukaföt, því það verður mikið fjör og allir verða skítugir upp fyrir haus.
Með von um að allir eigi ánægjulega daga framundan í þemavinnunni.