Þemadagar

Hafið

Dagana  28. - 30. okt. standa yfir þemadagar í Giljaskóla.

Markmið með þemavinnu er m.a. að brjóta upp hefðbundið skólastarf og gefa nemendum og starfsmönnum tækifæri til að kynnast hver öðrum og vinna saman þvert á aldur. Vinnulotur eru frá kl. 8.00 til 12:30.

Þemað  sem valið var að þessu sinni er Hafið.  Einnig var markmiðið að efni sem notað sé væri að mestu úr hlutum sem verið er að endurnýta s.s dagblöðum, morgunkornspökkum, gosflöskum, skeljum, þara, efnisafgöngum og fleiru sem til fellur.  

Að þessu sinni eru þátttakendur nemendur í 1.- 7. bekk ásamt sérdeildinni.  Settar verða  upp níu smiðjur sem hver um sig býður uppá ýmis verkefni.  í hverri smiðju geta verið um 20-40 nemendur. Nemendur fara á þrjár smiðjur þessa daga.

Smiðjurnar eru:

Krufningssmiðja
Þar á að kryfja fiska og skoða þá að innan og utan, innyfli og roð. Greina  mismunandi tegundir.  Víðsjár og stækkunargler notuð til að skoða enn frekar.    Fengnir verða ýmsir furðufiskar til skoðunar á hverjum degi og einnig verða bökuð fiskabrauð.

Lífríkissmiðja
Þessum hópi verður skipt upp í þrjár minni stöðvar, leir, maskínupappírsvinnu og búin til listaverk sem unnin eru úr efnivið úr fjörunni.  Ein starfsstöðin er í sérdeild, þar verður unnið með maskínupappír, bókaplast, málað á gler og efniviður úr fjörunni nýttur. Viðfangsefnin á stöðvunum verða m.a. fiskikassar, sjávarstrýtur, pappakassfiskibúr, glærufiskar og fiskar úr maskínupappír.

Spilasmiðja
Þar er ætlunin að endurvinna úr ýmsum efnum s.s. morgunkornskartoni og pappa ýmis spil sem tengjast fiskum. Hugmyndir eru lotto, jöfnuspil um fiska  spurningaspil, púsluspil o.fl.

Tauþrykks- og saumasmiðja
Unnið verður að gerð veggteppis – þrykkt á léreft. Sjávarbakgrunnur og lífverur sjávar búnar til.  Þrykkt verður á ullarfilt, fiskar sniðnir og saumaðir saman með ýmsum sporum, fylltir að innan og saumaðir á net. Ýmis sjávardýr og sjávargróður unnin úr því sem til fellur.

Myndmenntasmiðja
Þar verður unnið með ýmsa efnisafganga, leir, liti, pappa og fleira. Gerð verða ýmis sjávardýr, sjávargróður, hafið og fiskabúr.

Furðufiskasmiðja
Þar verður t.d. unnið með fiskamyndir á maskínupappír í olíukrít og bleki.
Plastflöskum breytt í furðufiska.  Risastór furðufiskur litur dagsins ljós, unnin úr hænsanvír, spýtum og pappamassa. Sandpappírsmyndir unnar úr vaxi og þrykktar á pappír.  Myndasögur og ritunarverkefni um ýmsa furðufiska unnin uppúr fræðibókum. 

Tónlistarsmiðja
Í tónlistarsmiðju verða kennd nokkur klassísk íslensk sjómannalög. Kennd verða 5-7 lög sem allir hóparnir læra. Lögin tengjast öll hafinu.
Stuttur fyrirlestur um fiskveiðar, fiskvinnslu, síldarævintýrið og þátt tónlistar í lífi sjómanna, fiskverkafólks og fjölskyldna þeirra, óskalög sjómanna o.fl.
Að lokum læra allir hópar að dansa kokkinn og sjómannavals. Að loknum þemadögum verður haldið sjómannaball þar sem nemendur dansa þessa dansa. 

Smíðasmiðja
Í smíðasmiðju er verið að skera út hina ýmsu fiska úr tré í vélsög eða með venjulegri bandsög.  Síðan eru þeir pússaðir, málaðir og hengdir upp á línu.  Má bjóða ykkur glænýjan línufisk? 

Sjóræningjasmiðja
Lesið verður upp úr sjóræningjabókum og þær liggja frammi til skoðunar.
Allir fá  að gera sjóræningjahatt úr kartoni og þeir sem vilja verða málaðir eins og sjóræningjar.
Búnar verða til fjársjóðskistur úr kartoni sem nemendur skreyta sjálfir og mega svo eiga.
Llitabókarblöð með sjóræningjum, fjársjóðskistum og ýmsu sem tengist sjóræningjum.

Á föstudagsmorguninn milli  kl. 9.00 og 11.00 verður svo sjómannaball á sal. Þar fá allir að spreyta sig á að dansa kokkinn  og sjómannavalsinn og leikin verða sjómannalög.

Myndir hér