Þemadagar í Giljaskóla

Ekki viðrar vel til útvistar fyrstu þemadagana. Rok og rigning hefur einkennt veðrið og dagskráin riðlast nokkuð eftir því.

Gönguhópurinn komst ekki út fyrr en eftir nesti í gær, betur hefur gengið í dag. Nemendur voru inni í gær að gera klippimyndir en fóru út eftir nesti að grasinu bak við Mjólkursamlagið og fóru þar í skóginn. Í dag var farið í Naustaborgir.

Hjólabrettahópurinn komst ekki á Háskólaparkið sökum rigningar.  Þess í stað fékk hópurinn að vera á hlaupahjólum, hjólabrettum og línuskautum í kringum skólann. 

Innivinnan er fólgin í því að skoða myndbönd í tölvum, skoða merki sem tilheyra hjólabrettum og gera okkar eigin merki.  Merkin eru síðan sett yfir á límmiða sem nemendur fara með heim.  Einnig var unnið að hugmynd að hjólabrettaparki hér við Giljaskóla.  Þá þurfti að finna út hvað væri á hjólabrettasvæðum, teikna það upp og koma því svo fyrir á kartoni til að hengja upp.  Þetta er mjög skemmtileg og áhugaverð vinna.  Allir glaðir og ánægðir með sína vinnu. 

Í fimleikasal eru um 45 börn í hverri lotu. Tvær lotur sem eru um níutíu mínútur í senn.
Við byrjum daginn með upphitun á löngum dýnum með ýmsum æfingum. Að henni lokinni er hópnum skipt í fernt og fá allir prófa það sem í boði er :
1) stökkva af trampólíni ofan í gryfju
2) ganga á jafnvægisslá og gera æfingar, lágri og hárri
3) dýnuæfingar + stökkva af trampólíni
4) stórt trampólín + bogahestur + tvíslá karla
Teygjur  eru gerðar í lokin.
Börnin eru  frábær. Allir glaðir, áhugasamir, hjálpsamir og skemmtilegir.

Á skauta fara um sextíu nemendur.  Þar er boðið uppá kynningu á hokkýskautum og listskautum og fá  allir að reyna sig sem gengur misjafnlega. Hafa nemendur fengið smáskrámur við þessa iðju enda nokkrir sem hafa aldrei fyrr stigið á skauta.

Í rjóðrinu okkar reistum við smáskýli til hlífðar fyrir rigningunni.  Við kveikjum eld og grillum brauð á pinnum sem krakkarnir tálga.  Farið er í ratleik og erum við að klæða indjánatjald með trjágreinum.  Allir ótúlega duglegir í rigningunni.

Í Boganum skiptast nemendur í hópa. Einn æfir frjálsar íþróttir undir handleiðslu Unnars þjálfara frá UFA, annar er í golfi,  þriðji hópurinn er í fótbolta og sá fjórði fær júdókennslu undir handleiðslu júdóþjálfara. Allir fá að prófa allt  :)

Dagarnir ganga vel, allir virðast glaðir og una sér vel.

Við þökkum sérstaklega þeim gestum sem koma þessa daga og  kynna okkur íþróttagreinar sínar.

Myndir hér