Titanic í Giljaskóla

Mánudaginn 23. apríl nk. munu nemendur í 9. BKÓ skila af sér heimildaritgerð í samfélagsfræði sem þeir hafa unnið að frá áramótum. Í ritgerðinni kemur Titanic mikið við sögu. Ný kennslubók  var tekin í notkun eftir jól en fyrsti kafli bókarinnar er að öllu leyti tileinkaður hinu hörmulega sjóslysi þar sem 1500 manns létu lífið. Augu nemenda hafa þess vegna beinst að miklu leyti að Titanic og hefur vinnan við heimildaöflun, úrvinnslu og frágang aukist jafnt og þétt síðustu vikurnar. Þegar þessi orð eru skrifuð er vinnan í hámarki hjá flestum og því upplagt að hamra járnið meðan það er heitt.  Þann 15. apríl sl. voru 100 ár liðin frá því að skipið sökk. Af því tilefni og vegna vinnunnar við ritgerðina ákváðu krakkarnir, ásamt Brynjari Karli samfélagsfræðikennara, að bjóða upp á sérstaka Titanic-dagskrá dagana 16. og 17. apríl. Sett var upp sýning á lesefni, myndum og munum tengdum Titanic. Nemendur horfðu á heimildamyndir, hlustuðu á viðtöl við eftirlifendur, fluttu erindi auk þess sem þeir teiknuðu myndir, unnu verkefni og lásu upp úr bók. Öll viðfangsefnin tengdust  skipinu fræga og undir hljómaði tónlistin úr kvikmyndinni Titanic eftir James Cameron.

Myndir hér.