Tölvur og tölvufíkn

Orðið tölvuvandamál og tölvufíkn hafa oft komið upp bæði í sjónvarpi og jafnvel í daglegu tali. Þá veltir maður fyrir sér spurningunni: Hvað er átt við með því ef maður er sagður eiga við tölvuvandamál að stríða?

Nú á tímum virðist vera að tölvur séu til á nánast hverju heimili landsmanna. Það er nauðsynlegt að eiga eða hafa aðgang að tölvu og kunna á tölvu nú til dags. Tölvan einfaldar lífið á margan hátt en það þarf að huga að notkun hennar. Tilkynnt hafa verið atvik, svo alvarleg að hringt hefur verið á lögregluna til aðstoðar. Þá hafa aðilar verið að eyða miklum tíma í tölvum og neitað að hætta. Sálfræðingur að nafni Eyjólfur Örn skrifaði eitt sinn pistil og þar segir hann: „Þegar einstaklingur kýs ítrekað netið umfram aðrar athafnir sem voru honum mikilvægar áður, er hugsanlegt að um vandamál sé að ræða.“ Í grein sem Hugo Þórisson sálfræðingur skrifaði fyrir nokkrum árum um börn og tölvufíkn segir meðal annars: „Eitt af þeim vandamálum hjá sumum börnum og foreldrum sem ég hef kynnst undanfarin ár sem sálfræðingur er það sem nú er kallað tölvufíkn. Mörg börn eru sífellt lengur og lengur fyrir framan tölvuna og foreldrar eiga oft erfitt með að draga þau frá henni. Margir foreldrar þekkja það að þegar verið er að kalla á börnin til að borða, koma að læra, koma í háttinn, koma með foreldrum í heimsóknir o.s.frv. Að heyra æ oftar setninguna: „ Bíddu”, „ ekki strax“ „ rétt bráðum “, „ ég kemst ekki núna”, „  á eftir”, ef foreldrarnir fá þá á annað borð svör frá börnum sínum. Alltof mörg börn og unglingar ráða ekki við að stjórna tölvunotkun sinni og eiga erfitt með að fara eftir reglum foreldra sinna. Það má þó ekki gleyma að tölvur eru mikilvægur og nauðsynlegur hluti af lífi barna og unglinga.“

Vandinn við tölvur er sá að fólk getur orðið háð t.d. tölvuleikjum, á þann hátt að það dettur inn í veröld tölvuleiksins og vill halda áfram þar. Þá gerir það sér enga grein fyrir því hvað tímanum líður og getur spilað leiki tímunum saman. Þegar svo er orðið þá getum við sagt að manneskjan eigi við tölvuvandamál að stríða. Því miður hafa komið upp ansi margar rannsóknir undanfarin ár sem hafa sýnt hve margir íslenskir unglingar kljást við tölvuvandamál. Nýlega í fréttum var sagt frá manni sem var svo upptekinn við að vera í símanum að hann gekk fram af bryggju og datt í sjóinn. Einnig kemur það fyrir annað slagið að fólk er að senda textaskilaboð í símanum sínum á meðan það er að keyra bíl, oft með skelfilegum afleiðingum og jafnvel hlotið bana af.

Hvað er samt til ráða? Hugo ráðleggur foreldrum að setja mörk varðandi tölvunotkun barna sinna, hvort sem þau eiga í vanda eða ekki. Besta leiðin til að takast á við vandann samkvænt honum er að afla sér upplýsinga, það er hægt að gera t.d. á netinu, kynna sér vel tölvunotkun barnanna, ræða ástandið, skilgreina vandann og áhyggjur foreldranna, finna lausnir og fylgja þeim eftir.

Tölvunotkun býður upp á bæði kosti og galla. Tölvan er á svo margvíslegan hátt nytsamleg en samt sem áður þarf að huga að því að umgangast hana af hófsemi. Tölvan getur til dæmis auðveldað samskipti við fjölskyldu og vini sem búa erlendis þar sem fólk getur jafnvel séð hvert annað á meðan rætt er saman. Mjög margir nota tölvuna til að lesa nýjustu fréttir og fræðast um nánast allt, einnig er hægt að lesa bækur í tölvunni þannig að rafbækur eru alltaf að aukast. Margir þurfa vinnu sinnar vegna að vera í tölvu  allan sinn vinnutíma en ég ætla nú ekki að kalla það tölvufíkn. Tölvunotkun í miklu magni er sannarlega óholl, hún getur valdið bakverkjum og jafnvel höfuðverkjum, augnþurrk og verkjum í úlnlið og handlegg. Tölvan er komin til að vera og reynum þá að nýta hana til góðs.

Rúnar Vestmann 10. SKB

 

Greinin  er unnin upp úr málstofuverkefni sem nemendurr 10. bekkjar fluttu munnlega á heimatilbúnu málþingi í skólanum í febrúar.