Næstkomandi föstudag ætlum við að taka þátt í UNICEF hreyfingunni. Markmið UNICEF-hreyfingarinnar er að fræða börn um réttindin í Barnasáttmálanum og virkja þau til samstöðu með jafnöldrum sínum um allan heim. Þá munu nemendur skólans hlaupa/ganga stuttan hring í hverfinu. Hver og einn nemandi fær heimspassa og í hann safnar hann límmiðum fyrir hvern hring sem farinn er. Samhliða geta nemendur safnað áheitum frá fjölskyldu og ættingjum fyrir hvern hring sem þeir hlaupa/ganga. Nemendur fá allir upplýsingabréf um viðburðinn ásamt áheitaumslagi. Áheitin eru algjörlega valkvæð og munu allir nemendur taka þátt í að fara hringinn og fá viðurkenningu á hverjum förnum hring. Þátttakan er mikilvægasti hlutinn af þessu ásamt þeirri fræðslu sem nemendur munu fá en nemendur horfa á myndband sem UNICEF framleiddi fyrir viðburðinn í ár. Myndin fjallar um breytingarnar sem fylgja Kórónaveirunni Covid-19 og mikilvægi þess að líða vel. Í myndinni er fjallað um að breytingarnar sem við erum að upplifa núna er eitthvað sem sameinar okkur öll, og hvað öll börn eru að standa sig vel þrátt fyrir erfiðar áskoranir. Myndin var unnin í samstarfi við Ævar Þór Benediktsson.
Með kveðju, Réttindanefnd Giljaskóla