Síðustu þrjá daga hafa staðið yfir skemmtilegir og lærdómsríkir þemadagar í 1. - 7. bekk. Ákveðið var að taka sjálfbærniþemað sem stendur nú yfir enn lengra og flétta við vísindi og sköpun. Nemendur unnu í aldursblönduðum hópum á ólíkum stöðvum, þar sem þeir m.a. lærðu um endurnýtingu og neyslu. Svo fengu allir nemendahópar þá áskorun að brjótast út úr "Break out herbergi" með því að leysa þrautir sem tengjast viðfangsefninu. Nemendur útbjuggu mylluspil úr steinum, veggteppi um sjálfbærni og stóra mandölu á vegg til að setja í jógarýmið. Einnig mátti sjá nemendur gera stuttmyndir um sjálfbærni og fara í spennandi vísindaverkefni með heimatilbúnum eldflaugum og bílum.
Nemendur virtust njóta sín vel í námi og leik undanfarna daga og vonandi sjáum við árangur í aukinni umhverfisvitund í framhaldinu.