Vertu netsnjall!

Bæklingurinn, sem ætlaður er börnum og unglingum og forráðamönnum þeirra, hefur að geyma ýmis heilræði um hvernig hægt sé að vera „netsnjall“ og hvetur um leið til gagnrýninnar hugsunar um það sem finnst á netinu.

Í bæklingnum eru meðal annars ráðleggingar um hvernig netnotendur geta stýrt „prófílnum“ á netinu og hvernig passa megi upp á persónuupplýsingar og lykilorð. Einnig er bent á að það sem þú skrifar á netið situr þar eftir um ókomna tíð. Jafnframt er fólk hvatt til að hugsa sig vel um áður en það setur myndir eða myndbönd á netið.

„Netið er heillandi heimur sem býður upp á ýmsa möguleika. En þar leynast einnig raunverulegar hættur. Stundum fara hlutirnir ekki eins og fólk vonast eftir. Hluti af því að vera netsnjall  felst í að komast að því hvaða  hættur leynast á netinu og  hvernig á að bregðast við þeim,“ segir Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla – Landssamtaka foreldra. „Þó að rannsóknir okkar sýni að flest börn noti netið á skynsaman og uppbyggilegan hátt, þá er þróunin hröð og sífellt eru nýir einstaklingar að stíga sín fyrstu skref á netinu. Þá er mikilvægt að vekja athygli á þeim hættum sem þar liggja og hvetja til ábyrgrar notkunar. En þessi heilræði eiga ekki síður erindi til þeirra fullorðnu.“

Gísli Þorsteinsson, markaðsstjóri Nýherja, og Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdarstjóri Heimilis og skóla

Gísli Þorsteinsson, markaðsstjóri Nýherja, og Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdarstjóri Heimilis og skóla

Bæklingnum og veggspjaldi, sem unnin eru í samvinnu Nýherja, SAFT, Heimilis og skóla – Landssamtaka foreldra, Landlæknisembættisins, og Barnaheilla – Save the Children Iceland, verður dreift í þá grunnskóla sem SAFT heimsækir í vetur. Einnig er hægt að nálgast hann á skrifstofu Heimilis og skóla. Honum verður einnig dreift í rafrænu formi til allra grunnskóla og verður ennfremur að finna á vef SAFT.



Bæklingur Veggspjald

Viðtal úr Samfélaginu í nærmynd við Hrefnu Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra Heimilis og skóla, um bæklinginn og fleira er við kemur SAFT og netöryggi er að finna hér.