Viðurkenningar fræðslu- og lýðheilsuráðs

Fræðslu- og lýðheilsuráð Akureyrarbæjar veitti nemendum og starfsfólki leik-, grunn- og tónlistarskóla Akureyrarbæjar viðurkenningar fyrir framúrskarandi skólastarf, skólaárið 2022-2023. Markmiðið með viðurkenningunum er að vekja sérstaka athygli á því sem vel er gert og hvetja þá sem fyrir valinu verða til þess að halda áfram því góða starfi sem þeir eru að vinna. Viðurkenningin er einnig staðfesting á að viðkomandi nemandi, starfsmaður, skóli er fyrirmynd annarra á því sviði sem viðurkenningin nær til. Óskað var eftir tilnefningum um nemendur, starfsfólk/kennara eða verkefni/skóli sem talin voru hafa skarað fram úr í starfi á síðasta skólaári. Heimtur voru með besta móti en um 74 tilnefningar bárust, 28 viðurkenningar voru valdar. Athöfnin hófst á tónlistaratriði en það var Valur Darri Ásgrímsson, nemandi í Brekkuskóla og Tónlistarskólanum á Akureyri sem flutti Distant Bells eftir Streabbog. Kristín Jóhannesdóttir, sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs, afhenti síðan viðurkenningarnar til nemenda og starfsfólks. 
Þeir sem hlutu viðurkenningar frá Giljaskóla voru: 

  • Bergrós Níelsdóttir og Kolfinna Stefánsdóttir, nemendur í Giljaskóla, fyrir að sýna frumkvæði og leiðtogahæfileika í skólastarfi
  • Elvar Máni Gottskálksson, nemandi í Giljaskóla, fyrir jákvætt viðmót
  • Astrid Hafsteinsdóttir, Giljaskóla, fyrir kennslu í textílmennt 
  • Bergmann Guðmundsson, Giljaskóla, fyrir jákvæðni, greiðvirkni og þjónustulund

Óskum við þeim innilega til hamingju !

Frétt tekin af heimasíðunni akureyri.is