Viðurkenningar skólanefndar

Í gær 1. júní veitti skólanefnd viðurkenningar til nemenda og starfsmanna skóla í Hofi. Starfsmenn sérdeildar Giljaskóla fengu viðurkenningu og Hafþór Orri Finnsson 7. AR.

Rökstuðningur með viðurkenningu til starfsmanna sérdeildar var:

Í sérdeild Giljaskóla eru átta fjölfötluð börn. Sérdeildin er rekin af Akureyrarbæ en getur jafnframt sinnt nemendum úr öðrum sveitafélögum á Norðurlandi í skemmri eða lengri tíma. Deildin er í sérútbúnu kennsluhúsnæði á 1. hæð skólans en nýtir einnig þjálfunarlaug í íþróttamiðstöð Giljaskóla, fimleikasalinn sem þar er og sérgreinastofur eins og smíða- og heimilisfræðistofu.

Starfið í sérdeildinni er ótrúlega fjölbreytt og námsgögn sérvalin með þarfir fatlaðra nemenda að leiðarljósi.  Áhersla lögð á að efla þroska á sviði skynjunar, hreyfingar, boðskipta,
hugsunar, félags- og tilfinningalegs þroska. Reynt er að skapa innihaldsríkan og skemmtilegan reynsluheim og auka færni nemenda til þess að takast á við daglegt líf, einföld störf og tómstundir.

Starfið í sérdeildinni hefur vakið aðdáun margra, bæði sérfræðinga, foreldra og annarra. Kemur þar til skýr sýn, kröftugt starfsfólk, skapandi og fjölbreytt nálgun og starfsgleði. Heimsóknir eru margar á hverju ári og deildin sinnir einnig ráðgjöf til annarra skóla á Akureyri sem vinna með fatlaða nemendur.

Starfsmenn sérdeildar Giljaskóla undir styrkri forystu Ragnheiðar Júlíusdóttur, þroskaþjálfa, eru samstillt og öflugt teymi sem á skilið viðurkenningu fyrir metnaðarfullt starf sitt.

 

Hafþór Orri Finnsson 7. AR fékk viðurkenningu með þessum rökstuðningi:

Hafþór Orri Finnsson, nemandi í 7. AH í Giljaskóla, hefur undanfarin ár glímt við líkamlega og námslega erfiðleika í kjölfar alvarlegrar heilahimnubólgu sem hann fékk fyrir nokkrum árum. Hann hefur sýnt ótrúlegan dugnað og eljusemi þrátt fyrir að vera með nánast stöðugan höfuðverk og lítið úthald. Hafþór Orri er mjög félagslyndur og lífsglaður strákur. Hann er vinur vina sinna, ávallt jákvæður og glaður í félagahópnum og dregur að sér aðra félaga. Hafþór Orri er alltaf blíður og elskulegur, jafnt að morgni sem í lok skóladags og hefur það mjög jákvæð áhrif á nemendahópinn. Þrátt fyrir erfiða daga hefur hann sýnt mikinn dugnað í vinnu sinni í vetur og tekist á við verkefnin af mikilli jákvæðni og uppskorið framfarir, m.a. aukið sjálfstæði. Það er aldrei ,,bilbug“ á Hafþóri Orra að finna, seigla hans er til algjörrar fyrirmyndar.

 

Hér má sjá myndir af hópnum okkar og einnig af öðrum vinningshöfum.

Við óskum þeim öllum hjartanlega til hamingju :)