Vinaliðaverkefnið sem er í skólanum núna er frábært verkefni sem byrjaði síðasta haust. Nokkrir skólar á Akureyri taka þátt í þessu verkefni til að allir hafi leikafélaga í frímínútum. Vinaliðaverkefnið á uppruna sinn í Noregi og þar eru u.þ.b. 800 skólar sem taka þátt í þessu verkefni í um 3 ár. Hin Norðurlöndin hafa einnig tekið þátt í þessu verkefni og er það í um 1000 skólum þar. Verkefnið gengur út á að hvetja krakkana til þátttöku í frímínútum og skapa betri skólabrag.
Nemendur í 4. – 7. bekk eru í verkefninu hér í Giljaskóla og gengur bara mjög vel að fá krakkana til að vera með í leikjunum og annarri afþreyingu. Markmiðið er að allir yngri og eldri nemendur hafi gaman í frímínútunum og hlakki til að koma í skólann. Það er líka valgrein í skólanum fyrir 8. – 10. bekk sem heitir ,,Leikir og lífsleikni''. Krakkarnir sem eru í því vali hjálpa vinaliðunum til að hvetja nemendurna að vera með í afþreyingunni.
Vinaliðar eru auðþekkjanlegir. Þeir eru í vesti eða með fyrirliðaarmböndum. Vinaliðarnir fá kennslu og þjálfun á leikjanámskeiðum. Einnig fá vinaliðar handbók með ýmsum leikjum til að vera með í frímínútunum. Vinaliðaverkefnið var fyrst prófað í skagfirskum skólum hér á landi sem tilraunaverkefni. Verkefnið heppnaðist mjög vel og byrjuðu þá fleiri skólar á landinu að taka þátt í því.
Þeir sem eru valdir sem vinaliðar eru í eina önn og svo eru valdir nýir vinaliðar í upphafi næstu annar. Þegar önninni er lokið er haldin þakkarhátíð fyrir fyrrverandi vinaliða. Þá er farið með þeim í sund og út að borða í hádeginu á Bryggjuna til að þakka þeim fyrir störf þeirra á síðustu önn.
Vinaliðaverkefnið hefur gengið mjög vel hér í Giljaskóla og vona ég að þetta verkefni muni halda áfram í skólanum fyrir krakkana svo þeir geti verið glaðir þegar þeir koma í skólann og að allir geti notið sín í frímínútunum.
Rakel Róbertsdóttir 10. SKB